laugardagur, 8. desember 2007

Bólgnir lífeyrissjóðir

Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg og í mörgu einkennst af ótrúlegum þekkingarskorti og skilningsleysi. Einkennilegt því það er búið skrifa einhver ósköp um lífeyriskerfið á undanförnum árum og eins liggja fyrir á netinu ákaflega greinargóðar útskýringar á því eins og t.d. á heimasíðu landssambands lífeyrissjóða.

Enn kemur þessi þekkingarskortur fram hjá annars prýðilegum blaðamanni í 24 stundum í dag, þar sem hann spyr hver sé tilgangur lífeyrissjóða. Sáralítið sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði sem notaður sé til þess að fjárfesta í viðskiptalífinu og hann segir í lokin „eðlilegt sé að velta því fyrir sér hverjum sjóðirnir séu að þjóna, iðgjaldagreiðendum eða íslensku viðskiptalífi."

Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð. Hluti inngreiðslu kemur beint frá sjóðsfélaga og hluti frá vinnuveitanda hans, en öll upphæðin er eign starfsmannsins, sjóðsfélagans. Hún er hluti lögbundinna launa hans. Lífeyrissjóður á í sjálfu sér engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í.

Lífeyrissjóðir starfa undir mjög ströngum lögum og eftirliti opinberra stofnana. Landslög veita lífeyrissjóðum einungis heimild til þess að greiða sjóðsfélagum þá innistæðu sem þeir eiga, þegar þeir fara á ellilífeyri eða verða fyrir því óláni að fara á örorku. Þeir greiða einnig makalífeyri, en hann er ákaflega misjafn, einnig er réttindaávinnsla mismunandi milli sjóða.

Hlutverk lífeyrissjóðs er að taka á móti iðgjöldum sjóðsfélaga og ávaxta þau með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni og greiða lífeyri til sjóðsfélaga. Kerfið er stillt þannig af að sjóðsfélagi sem greiðir allan sinn starfsaldur, það er frá 25 ára til 67 ára, á þá í sínum sjóð innistæðu fyrir lífeyri sem svarar til um 60% af meðallaunum frá 67 ára aldri til dauðadags. Ef viðkomandi hefur greitt í styttri tíma verður lífeyririnn minni í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar.

Flestir lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir árið 1970, en það er ekki fyrr en 1989 sem farið er að greiða til sjóðanna af fullum launum. Það þýðir að það er ekki fyrr en um 2031 sem til verða sjóðsfélagar með full réttindi og skýrir hvers vegna sjóðsfélagar eru að fá ákaflega mismundi mikinn lífeyri í dag.

Það eru stóru barnasprengjuárgangarnir sem komu í heiminn á árunum eftir seinna stríð fram til ársins 1960, sem eru safna upp sínum lífeyri og munu skella á lífeyriskerfinu af fullum þunga eftir árið 2031. Fram að þeim tíma fer vitanlega fram mikil uppsöfnun í sjóðunum, en eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja sjóðirnir að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka lífeyri sinn út.

Það var mikil framsýni sem leiddi til uppbyggingar íslenska lífeyriskerfisins. Flest önnur þjóðfélög í Evrópu greiða lífeyri í gegnum almenna skattkerfið, en eru í óða önn að taka upp íslenska kerfið. Þessi þjóðfélög eins og t.d. Frakkar slást við nú þessa dagana og reyndar Þjóðverjar líka, horfast í augu við þann alvarlega vanda að ef þeir gera ekkert í sínum málum þá verða þessi þjóðfélög gjaldþrota árið 2020, nema þá að skerða lífeyrisgreiðslur geysilega mikið. Gráhærðu árgangarnir verða sífellt stærra hlutfall og hlutfall skattgreiðenda minnkar hratt eftir þau tímamót. Ef ekkert verður að gert munu allir skattpeningar þessarar þjóða ekki duga fyrir óbreyttum lífeyrisgreiðslum.

Eins og ég kom að hér framar þá eru í gildi mjög ströng lög um sjóðina og farið reglulega yfir stöðu þeirra. Ef niðurstaða þeirrar könnunar leiðir til þess að viðkomandi sjóður á ekki fyrir skuldbindingum þá verður hann að skerða réttindi. Þar skýrir hvers vegna makalífeyrir er misjafn og eins ávinnsla réttinda, eins og ég kom að hér framar.

Til þess að útskýra þetta þá byggist stærðfræði sjóðanna í sinni einföldustu mynd á því að sjóðsfélagi greiðir 12% af launum sínum í iðgjald til lífeyrissjóðs í rúm 40 ár. Þá dugar innistæða hans fyrir framangreindum lífeyri til meðalaldurs. En lífeyrissjóður lofar í lífeyrisgreiðslum til dauðadags. Almennu lífeyrissjóðirnir eru sameignarsjóðir og geta staðið við þetta loforð vegna þess að jafnmargir falla frá fyrir meðalaldur og þeir sem lifa lengur.

En almennu lífeyrissjóðirnir eru eins margoft hefur komið fram í umræðu um þá að glíma við tvö feikilega erfið vandamál. Meðalaldur er sífellt að lengjast og örorka hefur vaxið langt umfram það sem gert var ráð fyrir þegar menn settust niður árið 1970 og reiknuðu út hversu mikið þurfti að greiða í lífeyrissjóð, þá var meðalaldur um 9 árum minni en hann er í dag og gert ráð fyrir að um 15% af útgreiðslum sjóðanna færi til örorku, en er komið upp í 40% í sumum sjóðanna í dag.

Lengi var iðgjald 10% en búið að hækka það í12% á síðustu misserum vegna þessarar skekkju. Þrátt fyrir þetta hafa nokkrir lífeyrissjóðir orðið að skerða réttindi um allt að 20% og það blasir við að ef ekki verður leiðrétt örorkubyrði sjóðanna, þá verða sumir þeirra að skerða enn meir.

Þingmenn og ráðherrar fundu einfalda leið leið út úr þessu, þeir breyttu lögum fyrir sína sjóði þannig að þar þarf aldrei að skerða, vegna þess að þeirra lífeyrissjóðir sækja það sem upp á vantar í ríkissjóð. Einnig er ávinnsla fullra réttinda hjá þeim mun hraðari en í almenna lífeyriskerfinu. Ráðherrar og þingmenn ákvörðuðu að mótframlag ríkissjóðs í lífeyrissjóð þingmanna skuli vera um 40% og hjá ráðherrum um 90%, en er hjá okkur öðrum skattgreiðendum þessa lands 8% eins og vel er kunnugt. Margir hafa réttilega kallað þetta sjálftöku, sem svo var skreytt enn frekar fyrir nokkurm árum með viðbót sem heitir eftirlaunaósóminn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þakka þér góða grein, Guðmundur. Það er vægt orðað að maður hafi orðið undrandi við lestur þeirrar "fréttar" í 24 stundum sem þú getur um. Þvílík fáfræði og heimsa sem þar birtist. Maður hafði nú ekki mikið álit á þessum snepli, en ekki hækkar það við að sjá að blaðamenn þar á bæ eru ekki bara fáfróðir. Svona skrif eru svo rætin að það ætti að varða við lög, ef það gerir það ekki þegar. Enn og aftur, þakka þér fyrir að taka þennan snáða á hné þér og upplýsa hann og aðra.