þriðjudagur, 11. desember 2007

Milljónfalt offramboð á skoðunum

Ég hef oft velt fyrir mér þeirri breytingu sem bloggvæðingin hefur hefur leyst úr læðingi og hvaða áhrif þessi þróun hefur og mun hafa miðlun skoðana. Það var oft erfitt að sætta sig við tök Moggans á umræðunni. Hann setti mál á dagskrá eða hélt málum utan umræðunnar að eigin geðþótta. Mogginn var lengi vel allsráðandi á þessum vettvangi. Ákveðnir stjórnmálamenn misstu stjórn á sér þegar þeir upplifðu það að menn úr viðskiptalífinu tóku til við að gefa út dagblöð, og þau með skoðanir sem ekki fóru í gegnum málhreinsun flokkskrifstofanna.

Handhafar valdsins settust að venju við eldhúsborðið og settu í snatri saman nýjar leikreglur um hvernig umræðan skildi fara fram, þvert á stjórnarskrá lýðveldisins. Stóðu í pontu hæstvirts Alþingis og veifuðu fríblöðum fullum af frjálsum skoðunum almennings hrópandi í örvæntingu; “Þetta verður að stöðva.” Líklega alvarlegasti fingurbrjótur í stjórnmálum undanfarinna áratuga.
Dagblöð voru vettvangur umræðum um þjóðfélagsmál og ritstjórar blaðanna höfðu kverkatak á skoðunarmyndun landinu og fríblöðin skelfdu stjórnmálamenn, sem aldrei höfðu treyst almenning til þess að velja sér lesefni og hvaða mál væru tekin til umfjöllunar í kaffiskúrum vinnustaðanna.

Ekki er hægt að saka fjölmiðla um að hafa áhrif á efnistök, en þeir réðu birtingunni. Hvort og þá hvenær. Ég mátti stundum bíða í allt að 6 vikum þar til sumir minna pistla voru birtir. Þegar þeir komu svo fram þá voru þeir hreint út sagt fáránlegir sakir þess að umræðan var á bak og burt og niðurstaða að skapi ritstjóra og ráðandi stjórnmálamanna fundin.

En nú er bloggið komið og það hefur mikil áhrif á tjáninguna. Vaxandi fjöldi fólks les blogg reglulega og fylgist þar með umræðu frekar en í dagblöðum. Framsetning er töluvert öðruvísi, jafnvel persónuleg líkt og dagbók, en um leið eru efnistök svo margbreytileg. Þar er líklega helsta aðdráttarafl bloggsins.

Nú eru það lesendurnir sem eru sínir eigin ritstjórar og sækja þær skoðanir sem eru þeim þóknanlegar og gerast jafnvel þátttakendur í rökræðu. Þeir velja þá sem þeir trúa og ákveða hvar sannleikann er að finna, og hafa einir leyfi til þess að ákvarða hvað sé birt á því dagblaði sem á hverjum degi er sett saman á tölvuskjá heimilisins. Nú ráða ekki lengur ritstjórar í reykfylltum bakherbergjum dagblanna. Í bloggheimum finnast skoðanir á öllu. Ofarlega í huganum er hvort hættan sé nú sú að þær skoðanir sem lesnar eru samsami um of skoðunum lesandans og hefti víðsýni hans.

Margir hafa tekið þessu tækifæri fagnandi. Reyndar eru of margir eins og kýr sem sleppt er út í vorið eftir að hafa setið langa heftandi vetur skoðanafrelsins á básum mörkuðum framandi ritstjórnum löggiltra pólitískra skoðana. Kjaftar eru þandir, nafnlausar svívirðingar strigarafta þeysa með ljóshraða um ógirta móa netheima, og sómafullir saumaklúbbar draga niðrum sig pilsin og jesúsa sig, á meðan virðulegir oddvitar skoðanamyndunar formæla, rjóðir í vöngum og steingeldir í ákvarðanatöku dagskrár daglegrar umræðu.

Nú er milljónfalt offramboð og enginn skortur á skoðunum, sem hlaðast upp í orkufrekum geymslum netheima og nú eru norrænnir gustar Reykjanesbæjar skyndilega eftirsóttir til kælingar á skoðunum almennings.

Í tilraun til þátttöku birta dagblöðin útvalda parta úr netheimum og fella það inn í blöð sín. Bloggvæðingin var skyndilega farinn að draga úr slagkrafti þeirra skoðana sem ritsjórnir dagblaðanna vilja halda að landslýð. Þær vilja ná tökum á umræðunni og ráða miðlun hennar með boði um ókeypis pláss þar sem valdir eru bloggæðingar sem settir eru á forsíðu. Margir telja sig ekki þess umkomna að hafna slíku tilboði og finna sig vera orðna gjaldgenga.

4 ummæli:

Jón Garðar sagði...

Skemmtileg vangavelta hjá þér Guðmundur - eins og vanalega, og hárrétt í kaupbæti.

Jón Garðar

Nafnlaus sagði...

"Nú er milljónfalt offramboð og enginn skortur á skoðunum, sem hlaðast upp í orkufrekum geymslum netheima og nú eru norrænnir gustar Reykjanesbæjar skyndilega eftirsóttir til kælingar á skoðunum almennings."

Kannski kominn tími á að afkastamestu bloggararnir fari að kolefnisjafna bloggið sitt?

:)

Nafnlaus sagði...

Hefur ekki alltaf veri� offrambo� � sko�unum?

N�na getur ma�ur bara fylgst me� fleirum... e�a h�f�u menn ekki sko�anir fyrir t�ma bloggsins?

Skr�in umr�a

Nafnlaus sagði...

Jú vitanlega hefur alltaf verið nóg af þeim, en þær hafa ekki átt greiða leið upp á yfirborðið, eins og stendur í textanum. Og svo eins og einnig kemur fram, þá eru allmargar sem flæða um bloggheima sem ekkert hafa þangað að gera.

Takk fyrir innlitið