sunnudagur, 2. desember 2007

Rafmagnsslys og afleiðingar þeirra


Við undirbúning jóla fara margir óvarlega með rafmagn og full ástæða að fara varlega. Það virðist vera svo að vaxandi fjöldi ófaglærðra komi að raflögnum í byggingum núorðið.

Ríkisstjórnin virtist meta hagsmuni Þróunnarfélagsins á Keflavíkurflugvelli meir en hagsmuni 350 fjölskyldna, því hún kippti úr sambandi öllum reglugerðum yfir rafmagnsöryggismál á Keflavíkurflugvelli í sumar. Þetta ásamt ýmsu öðru varð til þess að ég tók saman þennan pistil um hvað rafmagnsslys eru og afleiðingar þeirra. Það eru mjög margir gera sér ekki grein fyrir hversu víðtækar afleiðingarnar geta verið.

Hvað er rafmagnsslys? Sérhvert atvik þar sem rafstraumur hefur valdið því að einstaklingur hefur beint eða óbeint slasast af ljósboga eða við að fá rafstaum í gegnum sig.

Rafstraumur veldur skaða í lifandi vefjum fari hann yfir ákveðið magn og getur vitanlega verið banvænn. Líkaminn verður í raun eins og raftæki, hann myndar mótstöðu í rafrás. Svo þetta sé sett upp í myndrænt form. Líkaminn verður eins og brauðrist, þar myndast hiti og skemmd verður í vefjum sem valda mótstöðu, sem er í raun brunadrep. Það verður engin hiti í snúrunni að brauðristinni vegna þess að þar er góð leiðni, ekkert viðnám fyrir för straumsins.

Til þess að fá straum í gegnum sig þarf líkaminn að vera hluti straumrásar, það er að segja úr leiðara í annan, annað hvort af öðrum fasa eða í núll eða til jarðar. Í þessu sambandi má benda á það sem er mörgum hugleikið; Hvers vegna fuglar geti sest á raflínur eins og ekkert sé. Svarið er að þeir snerta ekkert annað en þessa einu línu. Það myndast engin leiðni í gegnum fuglinn. Lítil mús sem nagar sig í gegnum raftaug lendir aftur á móti illa í því, sakir þess að hún stendur á jörð með rafvírinn upp í sér, músin er orðin hluti af rafrás.

Straummagn á leið í gegnum líkamann ræðst af straumstyrk, stærð snertiflatar, eðli straumsins (riðstraumur eða jafnstraumur), lengd tímans sem straumurinn varir og leið hans gegnum líkamann. Svo notuð sé myndræn framsetningu, ef við sláum inn brauðristinni í stuttan tíma þá nær hún ekki að hitna. Straumstyrkurinn ákvarðast síðan af spennunni milli staðanna þar sem straumurinn fer inn í líkamann og út úr honum.

Ólíklegt er að spenna sem er minni en um það bil 20 volt valdi skemmdum, ef svo væri þarf straumurinn að vera mikill. Til þess að svo verði þarf leiðnin að vera góð. Þurr heilbrigð húð er ekkert sérstaklega góður leiðari, hún myndar ákveðna vörn fyrir innri vefji. Við getum t.d. hæglega tekið um báða póla rafgeymis í bíl án þess að verða þess vör. En 110 eða 220 voltin sem algeng eru í húsum geta valdið skaða. Straumur af umfrfam 200 mA í 200 millisek. veldur alvarlegu innra tjóni. Þeir sem meðhöndla rafmagnsslys þurfa að hafa það í huga að skemmdir sjást oft ekki, þar má benda á innri bruna, hjartatruflanir, skemmdir í vöðvum og nýrum.

Húðin er helsta vörnin, hún einangrar líkamann. Ef húðin er rök þá verður leiðnin betri og straumurinn meiri, því að þá á hann greiðari leið sinni inn í húðina og út úr henni. Vöðvar líkamans leiða best ásamt blóði, taugum slímhimnum og vöðvum. Það er mikið viðnám í sinum, fitu og beinum. Hitastigshækkun veldur mikilli hættu á að blóðtappar myndist. Við raförvun geta frumur umskautast og vöðvafrumur dragst saman. Það er t.d. út í hött að halda því fram að menn geti bara sleppt ef þeir fá stuð, virknin er öfug gripið verður fastara. Raförvun á vöðva hefur þau áhrif að þeir kreppast saman mjög öfluglega og geta skemmst við höggið. Algengur kvilli eftir raflost eru eymsli í hálsi, eins og t.d. eftir aftanákeyrslu. Hættulegustu áhrifin verða er straumur fer frá handar til handar um brjóstholið eða um hendi til fótar. Rafboð til hjartans truflast og hjartaflökkt getur verið afleiðingin. Rafbruni framkallar próteinbreytingu í vefjum og frumuveggjum.

Áhrif rafstraums á taugarkefið getur verið meðvitundarskerðing, lömun og öndunartruflunun sem valda svo súrefniskerðingu. Algeng afleiðing er minnistruflanir. Áverkar vegna falls t.d. úr stiga eru meðal einkenna vegna raflosts. Krampar koma fyrir.

Straumur í gegnum brjóstkassa getur framkallað samdrátt í öndunarvöðvum og hamlað eða jafnvel stöðvað öndun.

Straumur í gegnum öndurstjórnun í heila geta einnig stöðvað öndun.

Straumur í gegnum hálslagæðar geta truflað blóðþrýsting.

Straumur í gegnum hjarta getur truflað gang þess og valdið hjartsláttartruflunum.

Straumur í gegnum auga getur valdið því að það hvítni

Straumur í gegnum liði getur skemmt þá.

Straumur veldur innri bruna í vöðvum og beinum. Í beinum er viðnám mest og hiti veldur beinhimnuskemmdum og beindrepi.

Straumur veldur vöðvaniðurbrotseinkennum og eggjahvítu efni geta stíflað nýrun og valdið nýrnabilun. Nauðsynlegt er að drekka mikinn vökva til þess að hjálpa nýrunum við hreinsun líkamans. Þetta kemur fram í brúnu þvagi. Svipuð einkenni geta myndast við að taka þátt í maraþoni.

Starfsemi sumra lífsnauðsynlegra vefja byggist á rafvirkni, það er að segja einhvers konar rafstraumi eða rafboðum. Þetta á meðal annars við um taugavef og hjartavöðva sem geta truflast af framandi rafstraumi og stöðvun á starfsemi þeirra valdið dauða. Þetta á ekki síst við um riðstraum eins og áður er sagt.

Ef um háspennu er að ræða getur straumurinn haft áhrif á heilastarfsemi og valdið öndunarlömun. Rafstraumur sem leiðir eftir handlegg í brjóstkassann á leið niður eftir ganglim og í jörð getur truflað hjartað og valdið hjartsláttaróreglu og leitt þannig til dauða.

Í húðinni mætir straumurinn mesta viðnámi á leið sinni og þess vegna myndast þar mestur varmi og hitun verður mest. För rafstraums í blóðríkum vefjum undir húðinni er hins vegar greið og skemmdir þar eru fátíðar. Hér er viðnámið lítið, sem veldur lítilli hitamyndum. Rafstraumur fer alltaf auðveldustu leið.

Slys vegna rafmagns eru í raun ótrúlega fátíð miðað við hina geysilega miklu notkun rafmagns í lífi okkar. En það er samt sem áður ákaflega auðvelt að verða sjálfum sér til mikils skaða. Sérstaklega er ástæða til þess að vara við því að börn stingi „rafmagnsgjafa“ í munn sér, hér á ég við t.d. snúrur sem eru í sambandi, en sá endi sem á að tengjast tækinu er laus.

Einnig hættulegt að börn og reyndar aðrir séu að leika sér með málpinna og stinga þeim t.d. í tengla. Þá getur straumur átt greiða leið um líkamann til jarðar. Börnin geta sloppið ef þau eru í þurrum fötum eða á hreinu timburgólfi. Það er sérstök ástæða til að fara varlega með rafmagn í umhverfi barna og þar geta snöggútleysandi vör og lekaliðar skippt sköpum.

Háspennubrunar valda oftast alvarlegum skemmdum á vöðvum og innri líffærum. Ef meðvitund er góð, skal gefa ríkulega af vatni eða öðrum vökva, allt að 1/2 lítra á klst. Bæta má matarsalti í vatnið, 1 matsk. í hvern lítra. Gefið verkjalyf. Kæla yfirborðssár. Komið viðkomandi undir læknishendur sem fyrst. En við rafiðnaðarmenn höfum dæmi þess að mikil rafhögg hafa valdið geðrænum breytingum og valdið þunglyndi, ofsafengnum svitaköstum, andvökunóttum og fleiru.

Rafmagnsslys. Árið 2005 fékk rafvirki 11,000 volta straum í sig þegar hann setti inn 20 ampera öryggi uppi í staur. Hann fékk straum í hægri hendi og í gegnum sig og út um vinstra læri eða hné út í staurinn. Rafvirkinn missti meðvitund í örskamma stund, en klifraði síðan sjálfur niður staurinn og fór inn í bíl. Vinnufélagi hans ók síðan rafvirkjanum á sjúkrahús.

Rafvirkinn var brunninn á vinstra læri niður fyrir hné og að hægri hendi máttfarin. Í dag er ekki er enn ekki útséð hvaða áhrif þetta muni hafa á t.d. liði. Hann fær enn sára verki, sérstaklega í hné þar sem rafmagninu skaut út í staurinn.

Við slysið var höggið svo feiknarlega mikið að hann hélt í fyrstu að hann hefði misst höndina. Í þessu sambandi má einnig benda á að ef menn hafa ekki tryggt sig upp í staur með festu um sig miðja í staurinn, þegar þeir fá svona högg, þá kastast þeir frá staurnum, en hanga síðan í skófestunni og geta fengið alverleg meiðsl í fótum.

Fyrst eftir slysið minnkaði heyrnin hjá rafvirkjanum töluvert en það var tímabundið. Hann var mjög gleyminn fyrstu 6 til 7 mánuðina en telur það hafa lagast undanfarna mánuði. Hann er mjög viðkvæmur í liðum hægri handar og vinstra fæti og fær mikla verki í þá við minnstu áreynslu. Hann hefur ekki haft nógu góða stjórn á vinstra fæti, taugaboð virðast ekki í lagi. Á nóttunni fær hann oft verki ofan við vinstra hnéð. Brunasárið er orðið gott, en vöðvar í hnénu eru ekki í lagi. Eins er hægri hendi dofin og máttlítil. Ein nöglin á hægri hendi datt af og hún nær ekki að vaxa fram. Hún vex áleiðis en hvítnar svo og dettur af.
Í kjölfar slysins hefur rafvirkinn fengið Soriasis og er eins og áður er getið mjög oft með beinverki. Eftir slysið svaf hann ákaflega illa. Andlegt ástand hans er þannig að öðru hvoru fyllist hann depurð og þunglyndi, en stundum er hann jákvæður og bjartsýnn. Vinnufélagar rafvirkjans árétta það einnig að slysið hafi haft töluverð áhrif á hann, hann hafi misst framtak og daglega gleði. Þess má geta að hann er ekki enn kominn til vinnu tæpu einu og hálfu ári eftir slysið.

Félagslega hefur hann einangrast, áverkar eru ekki sjáanlegir og hann upplifir hlutina þannig að fólki finnist hann vera heilbrigður án þess að hann sé það. Það áttar sig ekki á þeirri andlegu breytingu sem hann hafi orðið fyrir.

Önnur dæmi eru til um alvarleg slys hjá rafiðnaðarmönnum sem hafa verið að störfum við háspennu. Þeir hafa misst útlimi og eins orðið fyrir alvarlegum truflunum á starfsemi lifrar, svo alvarlegum að skipta þufti um það lífæri og eins mikla truflun á hjartastarfsemi jafnvel hjartastopp oftar en einu sinni. Það sem veldur ákveðnum áhyggjum okkar er að það virðist bera stundum á ákveðnu ráðaleysi. Mönnum er ekki nægilega kunnugt um hvernig eigi að bregðast við. T.d. eins og kemur fram hér framar Ámunda er ekki gefið vatn.
Of oft er það svo að rafiðnaðarmenn eru að störfum við línur eru fjarri byggðum, því miður hefur það borið á því vegna hagkvæmniaðgerða orkufyrirtækjanna, að menn eru sendir einir og eru einir að störfum á stórum svæðum fjarri öðrum rafiðnaðarmönnum.

Ljósbogar. Slys vegna þess að rafiðnaðarmenn reka verkfæri sín eða búnað á milli straumhafandi póla koma fyrir. Oft er það svo að ekki er hægt að taka straum af án þess að það hafi mikil áhrif á starfsemi viðkomandi fyrirtækis og rafiðnaðarmenn vinna undir spennu í töflum. En ekki síður verða svona slys vegna þess að menn standa í þeirri trú að þeir séu að vinna í spennuleysi en eru það alls ekki.

Fyrir nokkrum árum var rafiðnaðarmaður að störfum við að ganga frá töflu og vann við mælingar. Hann mældi hvern staðinn á fætur öðrum meðfram annarri hlið töflunnar og síðan byrjar hann á andstæðri hlið og áttar sig ekki á að hann er þá að vinna við spegilmynd af því sem áður var og rekur mælir beint á straumhafandi hlið rofanna.

Við það skammhleypir hann 380 voltum og 1200 amperum. Það verður geysileg sprenging og allangur ljósbogi myndast. Ljósbogi er sama fyrirbæri og þegar verið er að rafsjóða. En þegar straumur er mikill getur ljósbogi teygt sig langt og orðið lanvginnur, teygt sig jafnvel nokkra metra og staðið í nokkrar sekúndur. Við þetta verður geysilega hár hvellur og nærstaddir geta brunnið mjög illa. Einnig fá viðstaddir erfiða rafsuðublindu. Í þessu tilfelli er ekki alltaf um að ræða að straumur fari um líkama viðkomandi.

Rafiðnaðarmaðurinn kastaðist af miklu afli yfir í næsta vegg. Það sem bjargaði augum hans var að hendi hans var í þannig stöðu að ljósboginn lenti á henni og hendin varði augu hans. Hann sá samt ekkert í nokkurn tíma á eftir og var með rafsuðublindu einkenni töluverðan tíma. Hann heyrði ekkert nema mikið suð lengi á eftir. Hann var á gjörgæslu í um vikutíma. Starfsfélagar hans sögðu að það hefði orðið albjart í öllum kjallaranum í allnokkra stund eins og á hábjörtum sólardegi.

Andleg líðan hans var mjög erfið í rúmt ár á eftir. Hann gat ekki hugsað sér að koma aftur á vinnustað sinn í Landspítalanum. Átti margar andvökunætur og fékk stundum heiftarlegar martraðir og mikil kvíðaköst. Hann fékk hjartaóregluköst, svitnaði mikið og varð þurr í munninum. Hann sagði mér að það sem hefði vantað upp á meðferð hefði verið andleg hjálp.

Andleg sár sjást ekki og okkur mörgum hverjum hættir til þess að líta svo á að ef viðkomandi getur staðið í fæturna og klætt sig og eru ekki með utanáliggjandi áverka, þá eigi hann bara að hætta þessum aumingjagang og koma sér í vinnuna. Það er ástæða til þess að leggja sérstaka ágherslu á andlega þáttinn, kvíðaköstinn þunglyndið og vanlíðunina. Sjáanlegir áverkar fá meðferð og skilning á meðan einstaklingurinn berst einn á nóttunni við kvíða og vill ekki láta á því bera á daginn og dregur sig í hlé. Á þessu sviði er full ástæða að vekja athygli starfsfélaga og eins viðkomandi fyrirtækja. Hvort við séum að tala um áfallahjálp veit ég ekki en það þarf að vera fastur liður í meðferð.

Okkur hættir til þess að ásaka þann sem lendir í óhappi, kannski vegna þess að við getum ekki ásakað óhappið sjálft. Slys verða otfar hjá þeim sem ekki hafa reynslu, þess vegna er t.d. sérstök ástæða að huga vel því að lærlingar séu ekki einir að störfum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.
Ég þakka þér fróðlega lesningu um blessað rafmagnið.
Ég(56), hef fylgst með gagnrýni á rafmagnskerfið á Miðnesheiði og...?
Árið 1970 var ég gestur á Sveita-Setri í Nebraska og fór þar í baðkar með vatni, þar sem ég teygði mig í þessa kúlu-snúru til að kveikja ljós var eins og ég fengi létt kjafts-högg, þetta var auðvitað bullandi útleiðsla sem ekki sló út rafmagninu á Setrinu.
Eru jarð-tengingar ekki í lagi á gömlu Kana-Slóðum?
Þú ert Frábær!!!