föstudagur, 7. desember 2007

Sjóðsfélagar lífeyrissjóða sektaðir

Í kosningabaráttunni í vor lofuðu sjálfstæðismenn, að greiðslur úr lífeyrissjóðum gætu aldrei orðið lægri en 25 þús. kr. Margir vildu vita hvað það væri í raun sem þeir væru að lofa, en það fengust aldrei svör.

Í sumum tilfellum kom greinilega fram að þingamannaefnin höfðu ekki hugmynd um hvað málið snérist og mátti jafnvel skilja svör þeirra svo að það ætti að skikka lífeyrissjóðina til að greiða þetta úr sínum sjóðum, sem ekki hefði staðist nein lög.

En núna er komið upp á yfirborðið hvernig þeir ætla að hafa þetta. Þeir sem hafa verið svo ósvífnir að fara að landslögum og greiða 10% af launum sínum í lífeyrissjóð fá allt að 25 þús. kr. sekt. Það fellur út króna á móti krónu.

Þeir sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóði eins og þeim bar lögum samkvæmt og hafa haft 10% meira til umráða, og eiga vafalaust hærri inneignir í verðbréfum eða húseignum. Skattborgunum þessa lands, þar á meðal þeir sem greiddu í lífeyrissjóðina, er gert að greiða þessu fólki verðlaun. Glæsilegt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þa hefur sennilega aldrei verið brýnna fyrir verkalýðshreyfinguna að taka fast á til að verja hagsmuni sjóðfélaga almennu lífeyrissjóðanna fyrir þá sem vilja komast yfir þetta fé með einhverjum ráðum. Ekki bara með blekkingum á hlutabréfamarkaði.