laugardagur, 1. desember 2007

Þar sem vegurinn endar


Það eina sem ég hef kynnst Hrafni var þegar hann hafði samband við mig fyrir margt löngu og bað mig um að koma í viðtal niður í Sjónvarp. Hrafn var þá með viðtalsþætti þar sem hann tók menn í bakaríið og hæddist af þeim í beinni útsendingu fyrir framan alþjóð. Ég var þá nýlega byrjaður í því starfi sem ég er enn í og var ekki alveg til í að koma, en Hrafn nauðaði í mér og eftir að ég var búinn að forvitnast um hvað hann ætlaði að tala um og við fara yfir það efni lét ég tilleiðast.

Viðtalið hófst og Hrafn byrjaði á að spyrja tveggja af þeim spuringum sem hann hafði rætt um en snéri svo snarlega af þeirri leið, eiginlega umturnaðist og dengdi fram í ofsafengnum ákafa spurningum sem voru í raun ekki spurningar heldur samansúrraðar fullyrðingar samdar í Morfísumræðum kaffihúsanna úr heimatilbúnum rökum drengja sem ekki þekktu til aðstæðna. Fullyrðingum sem er ekki hægt að svara nema í löngu máli. Þetta vissi Hrafn vel og var heldur ekkert að gefa færi á því að svara, en greip sífellt fram í og slengdi fram hverri spurningunni (fullyrðingunni) á fætur annarri.

Það rann upp fyrir mér þarna í beinni útsendingu, að ég hafði látið Hrafn plata mig. Var bráð sem hann var búinn að króa af og gat í raun ekkert gert nema bíða eftir því að þátturinn væri á enda. Ömurleg tilfinning þarna í beinni útsendingu. Á leið heim velti ég því fyrir mér hvort maður væru í þessu starfi sakir þess að vera þjakaður af píslarsýki á háu stigi. Hrafn naut þess greinilega að hvelja bráð sína og fór vafalaust að þátt loknum sigri hrósandi niður á 101 svæðið og hengdi enn eitt höfuð bráðar sinnar á veggi kaffishúsanna.

Í vikunni las ég bók Hrafns "Þar sem vegurinn endar", hún hefur fengið frábærar móttökur og gagnrýnendur nota stóru lýsingarorðin. Bókin kom mér sannarlega í opna skjöldu, því vitanlega þá hafði ég mótað mér ákveðna hugmynd um hver Hrafn væri. Ég tek fyllilega undir með gagnrýnendum og tek mér hiklaust í munn hjá orð Vigdísar Grímsdóttur um að bókin sé "yndislestur í orðsins fyllstu merkingu".

Hrafn lýsir þarna m.a. svæði sem mér er ákaflega kært, ég hef níu sumur gengið um Strandirnar norður um Hornstrandir í Jökulfjörðu á Drangajökul og um Snæfjallaströndina. Samtals rölt þarna um með bakpoka og tjald í 3 mánuði. Hrafn hleipir manni að sér og ég sá tilfinningaríkan mann, sem upplifði sitt umhverfi með svipuðum hætti og ég, ekki þann fursta sem ég hélt hann væri.

Settu “Þar sem vegurinn endar” efst á óskalistann.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, það fara misjafnar sögur af Höfundi bókarinnar. Ef til vill er þetta einskonar höfuðlausn. Margir bíða forvitnir.