mánudagur, 31. desember 2007

Hvert stefnum við?

Raunveruleikinn er orðin eftirlíking af sjálfum sér í endalausri í endurtekinni runu sjónvarpsþátta. Eftirlíkingin er kominn út fyrir ystu mörk raunveruleikans. Beinar útsendingar með sífellt hraðari atburðarás og botnlausri neysluhyggju. Sýndarveröld. Kvöld eftir kvöld sýnir sjónvarpið keppni. Hver getur sungið best? Hver getur lést mest? Hver er smartastur? Hver á flottustu íbúðina? Hvaða bíll er mest töff? Hvernig geta 5 hommar reddað púkó gæja og fengið hann til þess að fara í hreinar nærbuxur og vaska upp?

Lúserarnir brotna undan sársaukanum og við stökkvum fram og skellum poppi í örbylgjuna, meðan auglýsingarnar renna í gegn, svo við missum ekki af næsta niðurbroti, sem er endursýnt 3x í slow motion. Glanstímaritið býður á náttborðinu með viðtölum um framhjáhaldi, misnotkun eiturlyfja, missi sona og dætra. Sjálfævisagan um erfiða æsku og kynferðislega misnotkun bíður næsta kvölds, eða fær að koma með í sumarbústaðinn.

Hvert hafa skilaboðin leitt okkur? Hvers vegna eru 3000 bílar á bílasölunum með lánum sem eru jafnhá andvirði bílsins eða jafnvel stendur til boða greiðslu með honum viljirðu yfirtaka áhvíland lán? Hvers vegna er ekki hægt að flytja inn í nýja íbúð nema að allt sé til staðar, dýrustu heimilistækin, flottasta lýsingin og spes húsgögnin? Hvers vegna er íbúðin veðsett upp í rjáfur? Bíllinn í eigu fjármagnsfyrirtækis? Fataskápurinn keyptur í London og ferðin fjármögnuð með yfirdráttarláni?

Já láttu þér líða vel og byrjaðu að græða með því að taka lán, vextirnir hjá okkur eru ekki nema 18%.

Fjölmiðlar bera ábyrgð, þeir móta sjálfsmynd og hugmyndir fólks um hvað það vill vera og hvernig við eigum að búa. Hvar eru þættirnir sem móta gagnrýna hugsun, yfirsýn og þekkingu?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einhverntíman heyrði ég í sambandi við þetta brölt um besta, stærsta, flottasta, mesta að sá sem deyr fyrst vinnur.